Viðbrögð markaðarins við tilkynningu S&P voru mjög væg í gær. Áhrifin á íslensku krónuna voru snörp lækkun á krónunni til skamms tíma, en hún gekk að fullu til baka innan tveggja tíma. Engar mælanlegar breytingar voru á hlutabréfamörkuðum. Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Glitnis, segir að þar sem íslenska ríkið skuldi sáralítið bæði innanlands og utan, skipti breyttar horfur mjög litlu, nema ef það þyrfti að sækja sér fjármagn inn á markað af einhverjum ástæðum. En Í ljósi góðrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs sé það ekki líklegt í augnablikinu. Lúðvík Elíasson, hagfræðingur hjá greiningardeild Landsbankans, tekur undir það en bætir við að þó ríkið þurfi ekki að fjármagna sig með skuldabréfaútgáfu eins og er, gæti það breyst ef spár S&P rætast um hraða kólnun í hagkerfinu og samdrátt skatttekna. Hvað langtímaáhrif á krónunni varðar sagði Lúðvík það stjórnast af trú markaðsaðila á því hvort ríkið bregðist við ábendingum og hjálpi til við að draga úr þenslunni, eða hvort það haldi áfram að neyða Seðlabankann til frekari vaxtahækkana. "Ef að sú skoðun verður ofan á að ríkið haldi áfram að auka við ójafnvægið í kerfinu og knýi þar með fram harða lendingu, þá mun það veikja krónuna frekar," sagði hann. Ingólfur telur að áhrif umsagnar S&P verði lítil. Hann segir helstu áhrifin geta verið á stemminguna á markaðnum, sem í augnablikinu sé ekki góð og gæti þannig haft áhrif á stöðu íslensku bankanna á erlendum lánamörkuðum. "Heilt á litið er þetta ekki slík efnisbreyting í umhverfi íslensks fjármálamarkaðar eða hagkerfis að það ætti að kalla á einhver veruleg viðbrögð. Bæði vegna góðrar fjárhagslegrar stöðu ríkissjóðs og vegna þess að hvorki er verið að breyta horfum né lánshæfiseinkunnum bankanna, heldur einungis ríkisins," útskýrði hann.