Árlega þurfa um 9000 manns að leita aðstoðar vegna vinnuslysa hér á landi og rannsóknir sýna að enn fleiri verða fyrir heilsutjóni vegna atvinnusjúkdóma. Á árunum 2006 til 2008 létust að jafnaði 5 manns árlega í vinnuslysum hér á landi. Rannsóknir á Vesturlöndum benda til þess að 3-4% af landsframleiðslu glatist vegna heilsutjóns á vinnustöðum en það samsvarar 45-60 milljörðum króna á Íslandi.

Vinnueftirlitið og VÍS hafa tekið upp samstarf  sem miðar að því að efla forvarnir en talið er að með tiltölulega einföldum og ódýrum fyrirbyggjandi aðgerðum megi fækka verulega óhöppum og slysum í atvinnurekstri og draga þannig verulega úr þeim útgjöldum sem af þeim hljótast. Samstarf Vinnueftirlits og VÍS verður innsiglað með sameiginlegri ráðstefnu um forvarnarmál sem haldin verður þann 4. febrúar næst komandi segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá Vinnueftirlitinu og Vís.