Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefur gefið út samanburðarskýrslu um fjölda starfa á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu og Eyjafirði. Skýrslan sýnir vel hve hallar á Eyjafjörð í þessum efnum en fjöldi starfa á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu er svo mikill að önnur landsvæði líða fyrir. Á höfuðborgarsvæðinu eru um 73,3% ríkisstarfsmanna en þar búa um 62,7% landsmanna, í Eyjafirði eru um 6,8% ríkisstarfsmanna en þar búa um 7,4% landsmanna.

"Munur á fjölda opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu og Eyjafirði er því um 11 faldur en munur á íbúafjölda er um 8,5 faldur. Höfuðborgarsvæðið er því hlutfallslega með 27% fleiri starfsmenn en Eyjafjörður. Ef jafna ætti þennan mun þyrfti að fækka störfum á höfuðborgarsvæðinu um 2.770 eða sem jafngildir störfum hjá 25 Seðlabönkum Íslands. Aftur á móti þyrfti að fjölga störfum í Eyjafirði um 330 eða sem jafngildir 3 Seðlabönkum til að jafna muninn," segir í frétt á heimasíðu AFE.

Höfuðstöðvar stofnana

Um 86% af stofnunum ríkisins sem hafa einstöku hlutverki að gegna eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. 5 stofnanir eða 3,6% hafa höfuðstöðvar í Eyjafirði (sleppt framhaldsskólum, sýslumannsembættum og öðrum stofnunum sem hafa sama eða líkt hlutverk um landið). Æðsta stjórn stofnana er því aðallega á höfuðborgarsvæðinu sem gefur sterklega til kynna að þar eru ekki einungis langflest störf heldur einnig launahæstu störfin.

Störf á vegum ríkisins tengdum sjávarútvegi eru að mestu leyti á höfuðborgarsvæðinu eða rúmlega 90% af heild en einungis um 4,6% eru í Eyjafirði. Þessar tölur skjóta skökku við enda er sjávarútvegur atvinnugrein sem er hér um bil öll stunduð utan höfuðborgarsvæðisins og Eyjafjörður og nágrannabyggðir mesta sjávarútvegssvæði landsins. Þá er einnig eru öflugur landbúnaður og kjötvinnslur á svæðinu.

Í ljósi þessa eru ótrúlega fá störf hjá ríkinu tengdum sjávarútvegi og annarri matvælavinnslu í Eyjafirði. Það hlýtur að vera öllum til góðs, bæði stofnunum og fyrirtækjunum, að vera í sem mestri nálægð við hvort annað. Slíkt umhverfi ýtir m.a. undir nýsköpun. Fjarlægðin á milli þessara aðila er í dag of mikil og nauðsynlegt að setja störfin í meiri nálægð við atvinnuvegina. Það er því allra akkur að setja opinber störf tengdum sjávarútvegi og öðrum matvælaiðnaði í Eyjafjörð.