Kröfuhafar bankanna telja að gengislánafrumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra feli í sér eignarnám af hálfu ríkisins. Þetta vita stjórnvöld og biðja því um skaðleysisyfirlýsingar frá fjármálastofnunum. Þetta segir í bréfi Ragnars Aðalsteinssonar, lögmanns marga erlendra kröfuhafa gömlu bankanna.

Skaðleysisyfirlýsingarnar eiga að tryggja að fjármálastofnanir beini ekki kröfum á hendur ríkisins vegna löggjafarinnar. Þær hafa ekki borist ráðherra.

Í bréfi Ragnars til 11 fjármálastofnana, þar á meðal nýju og gömlu bankanna, segir að beiðni stjórnvalda um skaðleysisyfirlýsingar sýni að stjórnvöld geri sér grein fyrir að lagabreytingarnar brjóti á, eða geti brotið á, eignarrétti eigenda bankanna. Segir að kröfuhafarnir telji lagabreytingarnar geta haft í för með sér brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Af kynningu á frumvarpinu frá 22. október megi lesa að farið verði með lögleg lán í erlendri mynt á sama hátt og hin ólöglegu gengistryggðu lán. Það hafi í för með sér útlánatap sem eigi sér enga lagastoð.

Í bréfinu hvetja kröfuhafar stjórnendur bankanna að skrifa ekki undir yfirlýsingar, í það minnsta ekki án samþykkis kröfuhafa.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .