Yfirtökutilboð Straums-Burðarás upp á 7,6 evrur á hlut er 49% yfir dagslokagengi eQ frá því í gær. Miðað við stöðu eigin fjár eQ í lok 1F 2007 er V/I hlutfallið 4,1 sem er mjög hátt í alþjóðlegum samanburði segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu. þeir benda á að til samanburðar keypti Danske Bank bankastarfsemi Sampo á 3,5-földu innra virði.

Hagnaður til hluthafa eQ nam 16,8 milljónum evra á árinu 2006 sem samsvarar V/H hlutfallinu 15,50 sem er einnig nokkuð hátt. Inni í hagnaðartölu eQ fyrir árið 2006 er m.a. hagnaður af stóru ráðgjafarverkefni sem eQ vann fyrir finnska ríkið auk þess sem reiknaður skattur nam aðeins 10% en fyrirtækjaskattur er 26% í Finnlandi. Miðað við afkomu og stöðu eigin fjár eQ virðist félagið því dýru verði keypt segir Greining Glitnis.

Þeir telja þó að kaupin á eQ færi STRB nær markmiðum sínum og sé góð fjárfesting að því leiti. Með kaupunum eykur STRB fjölda viðskiptavina sinna umtalsvert auk þess sem bankinn nær aukinni landfræðilegri dreifingu og hefur starfsemi á sviði eignastýringar. Þá breytist tekjusamsetning bankans enn frekar þannig að um helmingur hreinna pro forma rekstrartekna bankanna fyrir 1F 2007 kemur frá hreinum vaxta- og þóknunartekjum. Til samanburðar skiluðu þessir tiltölulega stöðugu tekjuliðir um 24% af hreinum rekstrartekjum STRB á árinu 2006. Við teljum að kaupin á eQ séu því jákvætt skref í framþróun viðskiptamódels STRB. "Hinsvegar teljum við að kaupverð eQ sé hátt en áhugavert verður að heyra rök stjórnenda STRB fyrir þeim vaxta- og samlegðartækifærum sem kunna að búa í kaupunum," segir Greining Glitnis.