Þegar álverið í Helguvík  verður komið í fulla stærð árið 2015 munu þar starfa 400 starfsmenn og má varlega áætla að auk þeirra myndist a.m.k. tvö afleidd störf utan álversins á móti hverjum starfsmanni í álverinu. Þetta er niðurstaða úttektar sem Samtök atvinnulífsins hafa gert og birt er á heimasíðu þeirra.

Afleidd störf eru því hér áætluð 800 á ársgrundvelli og heildarfjöldi nýrra starfa 1.200 vegna tilkomu álversins. Í eftirfarandi umfjöllun er gengið út frá þeirri forsendu að bein og óbein áhrif álversins á verðmætasköpun verði hrein viðbót við þá starfsemi sem fyrir er á svæðinu, en ryðji ekki burt neinu sem fyrir er. Þá er ekki gert ráð fyrir að á svæðinu sé völ á annarri sambærilegri fjárfestingu sem kæmi í stað álversins. Ef um slíka fjárfestingakosti verður að ræða munu þeir hæglega geta orðið að veruleika samhliða uppbyggingu álversins.


Áætlað er að búsetuskipting þeirra starfsmanna sem fylla muni þessi 1.200 störf verði þannig að 780 verði búsettir í Reykjanesbæ, 240 í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og 180 á höfuðborgarsvæðinu. Þótt hér sé miðað við ákveðna skiptingu milli sveitarfélaga þá getur hún hæglega orðið önnur og ber því fyrst og fremst að skoða sem vísbendingu um hver þróunin getur orðið.