Greining Íslandsbanka telur að nýleg hækkun á opinberum gjöldum á áfengi og tóbak leiði til 0,23% hækkunar á vísitölu neysluverðs (VNV), en hækkun eldsneytisgjalda komi hins vegar væntanlega að mestu leyti fram í júlímælingu vísitölunnar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en Greining Íslandsbanka telur að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% í júní. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 11,4%, en í maí mældist verðbólgan 11,6%.

Þó telur Greining Íslandsbanka að verðhækkun á eldsneyti muni valda 0,25% hækkun á vísitölu neysluverðs.

„Gengislækkun krónu þokar einnig ýmsum öðrum innflutningsdrifnum undirliðum VNV upp á við, enda hefur evran hækkað um 9% frá aprílbyrjun og Bandaríkjadollar um rúm 8% á sama tíma,“ segir í Morgunkorni.

„Hins vegar gerum við ráð fyrir að húsnæðisliður vísitölunnar vegi til 0,2% lækkunar á VNV enda vísbendingar um að verð fari nú lækkandi á íbúðamarkaði þrátt fyrir einkennilega hækkun húsnæðisliðar VNV í maí.“

Verðbólga hjaðnar á seinni hluta ársins

Þá telur Greining Íslandsbanka að það sem eftir lifir sumars muni litlar breytingar verða á vísitölu neysluverðs, gangi spá deildarinnar eftir.

„Útsölur í júlí og ágúst, ásamt áframhaldandi lækkun íbúðaverðs, munu þar vega gegn áhrifum af framangreindri hækkun eldsneytisskatta og frekari áhrifum af veiku gengi krónu,“ segir í Morgunkorni.

„Annar innlendur verðbólguþrýstingur verður lítill enda mikill slaki á vinnumarkaði og ýmis annar innlendur kostnaður ýmist stendur í stað eða lækkar. Verðbólgan gæti því verið komin undir 10% í sumarlok. Í kjölfarið spáum við allhraðri hjöðnun verðbólgunnar eftir því sem miklir hækkunarmánuðir vísitölu detta út úr 12 mánaða verðbólgumælingunni. Verðbólga í árslok verður því nærri 4% ef spá okkar gengur eftir.“