Verðmöt Greiningardeildar Landsbankans gefa tilefni til að ætla að ávöxtun hlutabréfa í  kauphöllinni verði 12,5% á næstu 12 mánuðum og 18% frá upphafi til loka þessa árs. Greiningardeildin telur því að markaðurinn geti hækkað um 20%-25% á árinu 2007.

Í frétt greiningardeildar kemur fram að reynsla síðustu ára sýni aftur á móti að fyrirtækjakaup og útrás hafa aukið mjög virði fyrirtækjanna. Fyrirtækin hyggja flest á áframhaldandi útrás og hafa fjárhagslega  burði til þess telur greiningardeildin.

"Útlit fyrir áframhaldandi fyrirtækjakaup veldur því að við teljum líkur á að hækkunartilefni á hlutabréfamarkaði séu jafnvel meiri en verðmöt okkar og vogunarráðgjöf gefa til kynna. Auk þess eru markaðsaðstæður nokkuð góðar þrátt fyrir háa vexti," segir greiningardeild sem hélt morgunverðarfund til að kynna niðurstöðu sína.