Stýrivextir í Bandaríkjunum ættu í raun að vera -5% ef tekið er tillit til allra þátta efnahagslífsins.

Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin er af Seðlabanka Bandaríkjanna og birt var stýrivaxtanefnd bankans.

Skýrslan er unnin eftir svokallaðri Taylor reglu, en húm mælir þörfina fyrir stýrivexti með tilliti til  ýmissa þátta, þá helst til atvinnuleysis og verðbólgu en einnig gengisþróunar, neysluverðs, lánaútgjalda, olíuverði, launaþróun og fleira.

Eins og gefur að skilja getur enginn seðlabanki verið með stýrivexti undir núlli en skýrslan gefur til kynn aða stýrivextir Seðlabanka Bandaríkjanna, sem nú eru 0% - 0,25% haldist óbreyttir um sinn.

Þar sem bankinn getur ekki lækkað stýrivexti frekar leggja höfundar skýrslunnar til að bankinn aðlagi stefnumótun sína engu að síður í þá átt sem neikvæðir stýrivextir myndu færa efnahagslífinu. Sem dæmi má nefna að nú þegar hefur verið tilkynnt um áætlun yfirvalda um að kaupa upp eitruð veð fjármálastofnanna að verðmæti þúsund milljarða dala. Höfundar skýrslunnar leggja til að yfirvöld auki við þann sjóð og kaupi eitruð veð fyrir 1.150 milljarða dali en þar af leggi Seðlabankinn til 300 milljarða dali.

Seðlabankinn mun í vikunni kynna stýrivaxtaákvörðun sína en greiningaraðilar vestanhafs telja að þeir verði óbreyttir um sinn. Hins vegar er ekki búist við neinum stefnubreytingum hjá bankanum, þ.e. að hann kynni ný verkefni til að framkalla „neikvæða stýrivexti“ eins og það er orðað í fréttaskýringu Financial Times í dag. Búist er við því að Seðlabankinn haldi óbreyttum stýrivöxtum í 18-24 mánuði til viðbótar.