Í síðustu útgáfu á Þróun og horfum hjá greiningardeild KB banka spáði bankinn því að Úrvalsvísitalan myndi enda árið í um 7.000 stigum.

Vegna þeirrar óvissu sem skapast hefur undanfarið telur greiningardeild bankans nú eðlilegra að ætla að vísitalan muni enda árið á milli 6.500 og 7.000 stiga.

Greiningardeildin bendir á að mikið hefur gengið á í íslensku efnahagslífi undnafarnar vikur. Fjölmiðlar hafa verið yfirfullir af fréttum um íslenska banka- og hagkerfið og þá oft á tíðum á neikvæðu nótunum.

"Mikið magn erlendra greiningarskýrslna hefur litið dagsins ljós á tímabilinu og þrátt fyrir æði misjafnar skýrslur og niðurstöður hafa þær oft á tíðum sett mark sitt á íslenska markaðinn. Í Þróun og horfum að þessu sinni er meðal annars stiklað á stóru um nokkur þau atriði sem komið hafa fram í þessari umræðu," segir í Þróun og horfum.

Greiningardeildin bendir á að það er gjarnan notað sem þumalputtaregla að bjarnarmarkaður hefjist þegar hlutabréf hafa lækkað um 20% frá sínu hæsta gildi. Því marki er náð þegar við útgáfu þessa rits. Engu að síður er greiningardeildin nokkuð bjartsýn á þróun á íslenskum hlutabréfamarkaði það sem eftir er ársins.