Sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi hagnaðist um 4,9 milljónir evra, eða 753 milljónir króna, á 2. ársfjórðungi. Þetta er nokkru minna en á sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam 6 milljónum evra eða 922 milljónum króna. Á fyrri árshelmingi nam hagnaðurinn 10,6 milljónum evra, eða 1,6 milljörðum króna, samanborið við 16,2 milljónir evra (2,5 milljarða króna) á sama tímabili í fyrra.

Jónas Guðbjörnsson, fjármálastjóri HB Granda, segir uppgjörið vera gott og bendir á aukinn rekstrarhagnað á 2. ársfjórðungi í samanburði við 2. ársfjórðung í fyrra. Rekstrarhagnaðurinn nú nam 6,6 milljónum evra (1.013 milljónum króna) samanborið við 4,6 milljónir evra (706 milljónir króna) á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Skýringin á því að hagnaðurinn hafi dregist saman milli tímabila sé að í fyrra hafi verið leiðrétt lán, sem hafi haft áhrif á afkomuna.

„Það sem stendur upp úr er að kolmunnavertíðin var góð og eins hefur þorskverð, sérstaklega í sjófrystingu, verið að hækka verulega eftir að hafa tekið mikla dýfu í fyrra,“ segir Jónas. „Almennt hefur reksturinn gengið vel og við stöndum líka ágætlega kvótalega séð. Við viljum meina að horfur séu góðar og að árið verði gott.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .