Nærri helmingur alþjóðlegra fjárfesta telja að minnsta kosti eitt ríki yfirgefi evrusamstarfið innan tólf mánaða, ef marka má nýja könnun sem Bloomberg fréttastofan gerði. Um þriðjungur spáir því að eitt ríki eða fleiri muni yfirgefa samstarfið fyrir árið 2016.

Alls voru 1.097 fjárfestar, miðlarar og greinendur spurðir í könnuninni. Um 37% sögðu að ríkisfjármálabandalag sé hentugusta leiðin út úr þeirri skuldakrísu sem ríkir í Evrópu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, hafa á síðustu dögum lagt útlínurnar að slíku bandalagi. Í því felast ítarlegri reglur sem eiga að auka samleitni í efnahagsmálum evruríkja.