Um 64.700 erlendir gestir fóru frá landinu um Leifsstöð í september sl. og er hér um að ræða langstærsta septembermánuð frá upphafi í fjölda þeirra. Í september í fyrra var fjöldi þeirra 51.600 og fjölgaði þeim þar með um 25,4% milli ára.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun. Sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins eru brottfarir erlendra ferðamanna komnar upp í 537.000 og hefur þeim fjölgað um 17,2% frá sama tímabili í fyrra.

Fram kemur að erlendir ferðamenn hafa að jafnaði verið um fimmtungi færri í október en í september, og hefur fjöldi þeirra mest farið upp í rúm 38.800 sem var í október í fyrra. Miðað við þá þróun sem hefur verið á árinu og að því gefnu að hún verði með líkum hætti og á milli september og október síðustu ár, má ætla að erlendir ferðamenn hafi verið á a.m.k. 45 þúsund hér á landi í október.

Þá rifjar Greining Íslandsbanka upp að tölur Ferðamálastofu ná einnig til brottfara Íslendinga um Leifsstöð. Í september sl. héldu 32.300 Íslendingar erlendis, samanborið við 30.800 í september í fyrra. Jafngildir þetta fjölgun upp á 4,9% á milli ára. Sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins höfðu 275.200 Íslendingar haldið utan, sem er fjölgun upp á 5,8% frá sama tímabili í fyrra. Oftar hafa fleiri Íslendingar haldið erlendis í október en september, og er því ekki ólíklegt að raunin verði hin sama í ár.