Sá hópur fólks sem er án atvinnuleysisbótaréttar og þarf aðstoð frá sveitarfélögum mun fara stækkandi á næstunni. Þetta fullyrðir ASÍ í nýrri skýrslu og segir jafnframt að þessi þróun hafi nú þegar leitt til aukinna útgjalda sveitarfélaganna og frekari útgjaldaaukning sé fyrirséð á næstunni.

Bráðabirgðaákvæði um lengingu atvinnuleysisbóta í fjögur ár var ekki framlengt um síðustu áramót. Ástæðan fyrir því var talin að bráðabirgðaákvæðið myndi aðeins fresta vandanum ef það yrði lengt um eitt ár í viðbót. Ef ekkert hefði verið gert þá væri líklegt að þeir einstaklingar, sem féllu af atvinnuleysisbótum, væru þar með að falla varanlega af vinnumarkaði með tilheyrandi vanda og tjóni fyrir þá og samfélagið í heild. Það myndi hins vegar leiða til mikils sparnaðar í útgjöldum hjá Atvinnuleysistryggingasjóði en hafa milljarðaútgjöld í för með sér fyrir sveitarfélögin vegna aukinnar fjárhagsaðstoðar.

í skýrslu ASÍ kemur fram að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er veitt þeim einstaklingum sem hafa lægri tekjur en sem nemur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Allar tekjur umsækjenda og tekjur maka, ef við á, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, eru taldar með við mat á fjárþörf. Nokkur sveitafélög veita ekki fjárhagsaðstoð ef umsækjandi á eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið. Til að eiga rétt á fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélaganna þarf viðkomandi að eiga lögheimili í sveitarfélaginu.