Byko í Kópavogi.
Byko í Kópavogi.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Stóra verðsamráðsmálið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Í málinu eru þrettán starfsmenn byggingarvöruverslananna Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins ákærðir fyrir umsvifamikil samkeppnislagabrot sem framin voru á árunum 2010 og 2011. Margir af starfsmönnunum voru handteknir þegar málið var á rannsóknarstigi. Í fyrirtökunni á morgun hyggst saksóknari leggja fram yfirlit yfir þau sönnunargögn sem hann hyggst leggja fram í málinu. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 22. maí.

Ákært er fyrir brot á 10. grein samkeppnislaga þar sem lagt er bann við samningum og samstilltum aðgerðum sem lúta að verði, afslætti, álagningu eða öðrum viðskiptakjörum fyrirtækja. Í ákærunni kemur fram það álit saksóknara að samráðið sé saknæmt þó það hafi einungis verið drýgt af gáleysi. 10. grein samkeppnislaga geri ekki þá kröfu að sýnt sé fram á ásetning til að raska samkeppni og ákvæðið banni því samráð alveg án tillits til þess hvaða orsakir eða tilgangur kunni að liggja til grundvallar.