Þeir sem nýta sér báðar þær aðferðir sem felast i tillögum ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar ættu að geta lækkað höfuðstól lána sinna um 20%. Þetta sagði Sigurður Hannesson stærðfræðingur og formaður sérfræðingahóps sem mótaði tillögurnar.

Sigurður sagði þó að tekið yrði tillit til fyrri aðgerða. Hann nefndi dæmi um að þau heimili sem hefðu fengið skuldir niðurfelldar um þrjár milljónir með svokallaðri 110% leið fengu einungis eina milljón með þessum aðgerðum. Samkvæmt tillögunum getur hvert heimili fengið að hámarki fjórar milljónir niðurfelldar, að því gefnu að hið sama heimili hafi ekki fengið neinar skuldir niðurfelldar áður.

Sigurður sagði að í heild fælu tillögurnar í sér heildaráhrif upp á  150 milljarða króna. Þá sagði Sigurður að helstu áhrif af tillögunum yrðu þær að kaupmáttu launa myndi aukast verulega og hagvöxtur aukast. Hann sagði að verðbólguáhrifin yrðu hverfandi. Þá hefði aðgerðin hvetjandi áhrif á íbúðafjárfestingar.

Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar muni hefjast um mitt næsta ár.