Greiningardeild Arion banka telur að styrkingarþrýstingur sé á krónunni um þessar mundir. Þá bendi spár um verðbólgu, viðskiptakjör og utanríkisviðskipti - að ónefndri væntanlegri afléttingu gjaldeyrishafta - til þess að líklegra sé að hún styrkist en veikist.

Afborgunarferill erlendra skulda hefur þá gengið vel og til að mynda hafa eftirstöðvar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn greiðst upp að fullu. Einnig spila þættir á borð við auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis hlutverk í mögulegri styrkingu auk þess sem lánshæfismat ríkissjóðs er á uppleið.

Seðlabankinn keypti þá gjaldeyri fyrir 274 milljarða króna á síðasta ári. Árið 2014 námu viðskipti bankans 112 milljörðum króna. Hrein gjaldeyriseign bankans jókst þá um 248 milljarða króna 2015. Gjaldeyrisforðinn hefur aukist það sem af er ári 2016, en við lok febrúar stóð óskuldsettur forði bankans í um 367 milljörðum króna.