Eigendur Twitter telja að markaðsverðmæti fyrirtækisins sé 13,6 milljarðar dala, eða um 1660 milljarðar króna. Hægt sé að selja 70 milljónir hluta á genginu 23-25 dalir.

Twitter hefur enn ekki skilað hagnaði og tapaði reyndar 69 milljónum bandaríkjadala, 8,4 milljörðum króna, á fyrri helmingi ársins. Tekjur félagsins námu 254 milljónum dala, eða 31 milljarði króna.

Skráning Twitter þykir eitt það áhugaverðasta sem fram hefur farið frá því að Facebook var sett á markað árið 2012.

Lokaverð í útboði Twitter verður ákveðið á miðvikudaginn og bréfin fara svo í sölu í Kauphöllinni í New York á fimmtudaginn.

Hér má lesa meira um skráningu Twitter.