Markaðsvirði N1 er 18,25 milljarðar króna, samkvæmt virðistmati sem IFS greining gerði á fyrirtækinu. Útboði á fjórðungs hlut í félaginu lýkur í dag. Seljendur telja að virði félagsins í heild sé 15,3 milljarðar króna. IFS telur því verðmæti fyrirtækisins vera þremur milljörðum hærra en eigendur gera ráð fyrir í útboðinu. Samkvæmt virðismati IFS er verðmæti félagsins 18,3 krónur á hlut. Í útboðinu eru söluverð hlutanna hins vegar á bilinu 13,5-15,3

Okkur telst til að verðið sem stillt er upp í útboðinu standist og að kaupendur eigi nokkra  von um hækkun bréfanna til skemmri og lengri tíma. „Félagið hefur það með sér sem fjárfestingarkostur meðal annars að vera með sterka markaðsstöðu, fjársterkt, með skýra stefnu um rekstur, fjárhag, arðgreiðslur og fjárfestingar, í tiltölulega stöðugri starfsemi og að okkur virðist með öflugt eignarhald og stjórnendur,“ segir í IFS greiningu.

IFS segir að veikleikar félagsins sem fjárfestingarkosts fyrir almenna fjárfesta séu meðal annars þeir að félagið skili þunnum margínum þannig að litið megi út af bera til að hagnaður breytist í tap. Óvenjustór hluti tekna félagsins séu skattar og gjöld og þar með háður sértækum pólitískum ákvörðunum. Eignir félagsins séu að stærstu leyti veðsettar banka og að óljóst sé á þessum tímapunkti hverjir verði framherjar félagsins til langs tíma, þar sem tveir stærstu eigendur þess selja líklega sinn hlut á næstu mánuðum eða misserum. IFS segir að eigendur undirgangist engin höft við frekari sölu á hlut sínum fyrst eftir frumútboðið.