„Þeir fjárfestar sem krefjast augljóss útboðsafsláttar ættu þannig að láta vera að taka þátt og við ráðleggjum fjárfestum ekki að kaupa og metum betri tækifæri í öðrum skráðum félögum í Kauphöll Íslands,“ segir í fyrirtækjagreiningu Arion banka ætluðum fagfjárfestum um útboð Eimskips.

Að mati greiningardeildarinnar er félagið ekki til sölu á neinu útsöluverði og spurt er hvort tími útboðsafsláttar sé liðinn. Miðað við forsendur Arion og spár er ætlun seljenda að fá fullt verð fyrir sinn hlut.

Tekið er fram að virðismatið sé næmt fyrir þeirri ávöxtunarkröfu sem fjárfestar gera ásamt forsendum um framlegð. „Mikill skortur er á fjárfestingarkostum á Íslandi, sér í lagi hlutabréfum í stórum félögum sem skráð eru á markað.

Umhverfi sem þetta er hagstæðara fyrir þá sem vilja selja eignarhluti en fyrir þá sem þurfa að koma fjármagni í vinnu,“ segir í greiningunni. Greiningardeild Arion metur hlutinn á 217 krónur sem miðast meðal annars við 12,3% ávöxtunarkröfu eigin fjár og 3,1% framtíðarvöxt. Markaðsvirði félagsins liggur samkvæmt því á bilinu 37,7 til 41,4 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.