Með því að aðskilja rekstur viðskiptabanka og fjárfestingabanka er hægt að draga verulega úr kerfisbundinni áhættu fjármálakerfis landsins. Það myndi einnig draga úr áhættu á að kostnaður vegna fjármálahruns lendi á herðum almennings, þ.e. skattgreiðenda, sem hann myndi annars gera, þar sem innlán viðskiptabanka eru í dag tryggð með ríkisábyrgð. Þá myndi aðskilnaður stuðla að heilbrigðri og virkri samkeppni á fjármálamarkaði.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Straums fjárfestingabanka um þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að rekstur viðskiptabanka og fjárfestingabanka verði aðskilinn en efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hafði óskað eftir umsögn bankans um tillöguna.

„Eins og kemur fram í tillögunni er mikil umræða  um þessar mundir, bæði hér á landi og annars staðar í heiminum, um hvort aðskilja eigi viðskiptabanka og fjárfestingabanka, og eru þjóðir beggja vegna Atlantshafsins að fikra sig í átt að aðskilnaði þessara þátta, og mæla margir sérfræðingar með honum,“ segir í umsögninni.

„Þá má nefna að nokkrir stórir fjölþjóðlegir alhliða bankar hafa þegar tekið skref í átt að aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi innan viðkomandi stofnana. Sem dæmi má nefna aðila eins og Crédit Suisse, UBS, Barclays og Goldman Sachs.

Þá segir í umsögn bankans að fjárfestingabankastarfsemi samhliða viðskiptabankastarfsemi leiði af sér hegðun sem ekki verður stöðvuð með reglum, sem ganga skemmra en aðskilnaður umræddrar starfsemi, eða auknu eftirliti.

„Er hér átt við freistnivandann og hagsmunaárekstra sem eru augljóslega fyrir hendi þegar umrædd starfsemi fer saman,“ segir í umsögninni.

„Ekki verður komið í veg fyrir slæm áhrif freistnivandans og hagsmunaárekstra á meðan eðli manna er óbreytt – því er ljóst að sagan endurtekur sig nema ráðist sé að rótum vandans þegar í stað. Í ljósi framangreinds verður að telja þau rök sem fram koma í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins, og getið er í tillögunni, um að sem standi séu hættumerki um óheppileg tengsl þessara tveggja starfsþátta ekki sérstakt áhyggjuefni í hinu nýendurreista fjármálakerfi hér á landi, vera veik. Mikilvægt er að horft sé til framtíðar í þessum efnum.“

Þá segir einnig að aðstæður séu þannig á Íslandi í dag að nýta eigi tækifærið  þar sem enn sé hægt að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingabanka með litlum tilkostnaði og án mikillar röskunar á fjármálakerfinu.

„Ástæður þess eru m.a. [...] að fjárfestingabankastarfsemi íslensku viðskiptabankanna er í dag tiltölulega lítið hlutfall af þeirra starfsemi,“ segir í umsögninni.