Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 8,6% í vikunni. Eftir miklar hækkanir síðustu mánuði kemur það að mati greiningardeildar Íslandsbanka ekki á óvart að hlutabréfaverð gefi eftir. Sérstaklega í ljósi þess að einkenni verðbólu hafa orðið sífellt meira áberandi. "Í byrjun mánaðarins, þegar við gáfum út afkomuspá, áttum við von á meiri hækkunum áður en toppnum yrði náð. Það sem breytir myndinni frá þeim tíma er það gríðar mikla framboð af nýju hlutafé sem er í deiglunni," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þars egir ennfremur að fjárfestar hafi látið reyna á styrk markaðarins á mánudaginn eftir að hann hafði verið því sem næst flatur í nokkuð marga daga. Á næstu dögum má áfram reikna með talsverðum verðsveiflum, sérstaklega innan dags. Í ljósi mikilla viðskipta síðustu daga má búast við að söluhlið verði áfram sterk næstu daga. "Á hinn bóginn eru fjárfestar sem sjá tækifæri í þessum verðlækkunum. Verðmöt sem byggð eru á fyrirliggjandi rekstri eru líkleg til að hafa meira að segja um verðþróunina en verið hefur síðustu vikur. Þá eru félögin að birta uppgjör sín þessa dagana og því von á fjölda frétta sem kunna að hafa áhrif á hlutabréfaverð," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.