Árið 2015 verður á margan hátt nokkuð merkilegt í sögu efnahagsmála eftir hrun gangi spár eftir, að mati Greiningar Íslandsbanka. Samkvæmt spám Seðlabankans, Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Hagstofunnar er gert ráð fyrir því að hagvöxtur muni glæðast á næstunni, verða 2,5%-2,7% á næsta ári en 2,8% árið 2015. Á sama tíma spá þeir hinir sömu því að atvinnuleysi muni minnka áfram á næstu tveim árum og að slakinn verði horfinn úr efnahagslífinu árið 2015. Verðbólga mun sömuleiðis hjaðna samkvæmt spá þeirra og verða nálægt verðbólgumarkmiði. Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að gangi spárnar eftir þá verður landsframleiðsla árið 2015 verða meiri í fyrsta sinn eftir hrun en hún var árið 2008.

Greiningin bendir þó á að við þá miklu óvissu sem nú er í efnahagsmálum á Íslandi sé nokkuð merkilegt að spárnar séu nokkuð keimlíkar.

Í Morgunkorninu tæpir greiningardeildin á spánum og segir:

„Óvissan í efnahagsmálunum endurspeglast betur í undirliðum ofangreindra hagvaxtarspáa. Þannig reiknar OECD með talsvert meiri vexti í útflutningi næstu árin en bæði Hagstofan og Seðlabankinn gera ráð fyrir. Spáir stofnunin 3,1% vexti í útflutningi á næsta ári og 3,2% á árinu 2015. Seðlabankinn á hinn bóginn reiknar með 2,2% vexti útflutnings á næsta ári og 1,6% á árinu 2015. Á móti reiknar OECD með minnstum vexti fjárfestinga af þessum aðilum, eða 6,2% á næsta ári og 7,1% á árinu 2015. Seðlabankinn reiknar með 8,9% vexti fjárfestinga á næsta ári og 22,8% árið 2015. Þá reiknar Seðlabankinn með áberandi minnstum vexti í einkaneyslu næstu tvö árin.“