Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur lagt mat á þjóðhagslega arðsemi og samfélagsleg áhrif af lagningu vegar yfir Kjöl, fyrir Norðurveg ehf.  Niðurstöðurnar sýna að framkvæmdin er mjög arðbær og fellur vel að byggðaáætlun og samgönguáætlun stjórnvalda segir í fréttatilkynningu.

Samfélagslegur ábati af framkvæmdinni er mikill eða 5,6 milljarðar króna. Ef veglagningin á sér stað í samdráttarskeiði verður ábatinn enn meiri eða tæpir sex milljarðar króna.

Umferðaslysum mun fækka um 24 á ári að mati skýrsluhöfunda með tilkomu vegarins. Ábati vegna fækkunar umferðaslysa einn og sér er metinn á 1,3 milljarða króna. Það að vöruflutningar dreifast á tvær leiðir í stað einnar kemur ennfremur til með að draga úr umferðaálagi og auka öryggi vegfarenda.

Útblástur koltvísýrings vegna tilkomu Kjalvegar er talinn minnka um allt að 2000 tonn á ári.

Þegar horft er til samfélagslegra áhrifa er það mat skýrsluhöfunda að flutningskostnaður á hvert tonn milli Reykjavíkur og Akureyrar muni lækka um 1000 kr. og 2800 kr. milli Selfoss og Akureyrar. Samkeppnisstaða norðlenskra fyrirtækja myndi batna mest með nýjum vegi en skýrsluhöfundar leiða líkum því að allir landsmenn myndu njóta verðlækkunar vegna minni kostnaðar við dreifingamiðstöðvar.

Nýr Kjalvegur mun hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu og leiða til meiri dreifingar á ferðamönnum um landið. Jafnframt mun Kjalvegur lengja ferðamannatímabilið, sérstaklega á Norðurlandi en einnig á Suðurlandi. Nýir valkostir fyrir ferðamenn munu létta undir við að taka á móti fyrirhuguðum fjölda ferðamanna sem koma munu til landsins á næstu árum.