Áfengisinnflytjandinn Dista ehf. hefur stefnt ÁTVR fyrir dóm og krefst þess að tvær ákvarðanir stofnunarinnar verði felldar úr gildi. Stofnunin hafði ákveðið að fella tvær bjórtegundir úr vöruúrvali verslana sinna og hætta innkaupum á þeim þar sem framlegð þeirra væri of lítil. Það telur Dista að standist ekki lög.

Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að ÁTVR skuli gæta jafnræðis við val á vöru og ákvörðun um sölu og dreifingu áfengis, en ÁTVR er falið að ákveða árangursviðmið söluflokka og birta á vefsvæði sínu. Vinsældir vara ráða m.a. hvar þær eru boðnar til sölu og hvar ekki, en mismunandi vöruframboð er í mismunandi verslunum. Í reglugerðinni segir að framlegð, mismunur á innkaups- og söluverði að frádregnum virðisaukaskatti, síðastliðna tólf mánuði skuli ráða forgangi vöru til dreifingar. Til að bjór geti komist í svokallaðan kjarnaflokk þarf hann að falla í flokk þeirra fimmtíu bjóra sem besta hafa framlegðina.

Lögmætisregla og atvinnufrelsi

Bjórtegundirnar tvær sem deilt er um í málinu eru Faxe IPE og Faxe Witbier en þeir náðu ekki í kjarnaflokkinn á grunni nefndar vöruvalsreglna. Var það reyndin þrátt fyrir að fleiri lítrar af þeim hafi selst en í tilfelli annarra bjóra í sama vöruflokki. Að mati Dista standast umræddar ákvarðanir ekki lögmætisregluna, um að ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda verði jafnt að eiga sér stoð í lögum sem og að vera í samræmi við þau, og lagaáskilnaðarreglur stjórnarskrárinnar. Atvinnufrelsið sé jú verndað í stjórnarskrá og fyrirkomulega sölu áfengis sé inngrip í það frelsi. Lög og reglur sem skerða það verði að vera skýrar, ótvíræðar og ekki háð óljósu mati.

„Að mati stefnanda leiddu ákvarðanir [ÁTVR] til þess, að vörurnar voru í raun útilokaðar frá smásölu á Íslandi vegna einkaleyfis [stofnunarinnar]. Þær voru íþyngjandi og fólu í sér takmörkun á stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi [Dista], án þess að byggja á skýrri og ótvíræðri lagaheimild," segir í stefnu málsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .