Miðað við þær forsendur sem greiningardeild Landsbankans gefur sér fæst út að markaðsvirði hins sameinaða félags Bakkavarar og Geest sé 65,8 milljarðar króna og verðmatsgengið 22,8 kr. á hlut. Gengi Bakkavarar í lok dags þann 14. janúar 2005 var 25,7 og er verðmatsgengið því 11,3% lægra.

"Í greiningu okkar á Bakkavör, sem gefin var út þann 22. september síðastliðinn, lögðum við m.a. mat á verðmæti félagsins að teknu tilliti til hugsanlegrar yfirtöku á Geest. Á þeim tíma lá ekki fyrir endanlegt kaupverð á hlutunum í Geest né hversu mikið af nýju hlutafé Bakkavör myndi gefa út til að fjármagna kaupin. Nú þegar kaupverð á Geest liggur fyrir og heimild til hlutafjáraukningar hefur verið veitt, höfum við verðmetið sameiginlegt félag," segir í frétt greiningardeildar Landsbankans.

Þar kemur einnig fram að enn eru óvissuþættir til staðar, t.d. um útboðsgengi við hlutafjáraukningu, samsetningu efnahags og möguleg samlegðaráhrif.