Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) segir það hafa mikla þýðingu fyrir íslenska neytendur að Danmörk hafi nú fengið viðurkenningu ESB á sérstöðu sinni í sjúkdómsvörnum. Hann segir jafnframt að nú sé orðið löngu tímabært að íslensk stjórnvöld sæki um að fá sambærilega heimild til að krefjast viðbótartrygginga vegna innflutnings og hin norrænu ríkin hafa fengið.

„Seinni hluta ársins 2017 komu 42% innflutts kjúklingakjöts frá Danmörku en 50% frá Þýskalandi. Samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað hjá innflytjendum má ætla að hlutur dansks kjúklings í innflutningnum muni vaxa verulega á árinu 2018 á kostnað þýsku vörunnar,“ segir Ólafur.

„Íslenskum neytendum er ítrekað sagt að sjúkdómastaða íslenskra alifugla hvað varðar salmonellu sé betri en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli. Samt hefur íslenskum yfirvöldum ekki dottið í hug að fá vottun alþjóðastofnana á að það sé raunin og að íslenska eftirlitskerfið sé jafngott og í hinum norrænu ríkjunum. Í ljósi þess að bannið við innflutningi ferskvöru verður afnumið í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins er ekki seinna vænna að íslensk stjórnvöld vinni vinnuna sína í þessum efnum,“

Ísland megi ekki krefjast vottorða eins og staðan er í dag

Segir félagið á vef sínum núverandi einhliða kröfu íslenskra stjórnvalda um salmonelluvottun frá innflytjendum hafa verið dæmd andstæð EES samningnum. Ísland hafi því ekki heimild til að beita viðbótartryggingum fyrir íslenskan landbúnað eins og er nú eftir að dómur EFTA dómstólsins féll í nóvember um bann við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk.

Samkvæmt dómnum hafi Íslensk stjórnvöld ekki sótt um slíka heimild samkvæmt reglugerðum ESB líkt og Svíþjóð, Finnland og Noregur höfðu fyrir, svo Ísland sé nú eina norræna ríkið sem ekki megi krefjast salmonelluvottorða.