Í dag verður milliþinghald fyrir aðalmeðferð í máli fjögurra rétthafasamtaka gegn eigenda Istorrent ehf. á þeim forsendum að hann hafi framið stórfelld brot á höfundarrétti með rekstri fyrirtækis síns, sem er íslenskt vefsamfélag með það að markmiði að nýta sér svokallaða BitTorrenttækni til að dreifa skrám á milli sín á netinu. Talið er að þriðja tug þúsund aðila sé aðili að vefsamfélagi þessa og hafi þúsundir notenda skipst á skrám með þessum hætti. Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Rétthafasamtökin fjögur, SMÁÍS (Samtök Myndrétthafa á Íslandi), SÍK (Framleiðendafélagið), STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) og FHF (Félag hljómplötuframleiðenda), óskuðu í nóvember sl. eftir að sýslumaðurinn í Hafnarfirði legði lögbann á starfrækslu vefsins torrent.is, sem notaður var til að skiptast á skrám. Féllst sýslumaður á þessa beiðni og höfðuðu rétthafarnir mál í kjölfarið. Aðalmeðferð málsins verður að líkindum eftir viku.

Í gær dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur níu menn fyrir stórfelld brot á höfundarrétti vegna svo kallaðs Direct Connect jafningjanets, og kveðst Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, þess fullviss að málið hafi fordæmisgildi og geti haft mikil áhrif á niðurstöðuna í málinu gegn eigenda Istorrent.