Gengisvísitalan hefur lækkað um 2,6% frá opnun í morgun og er hún nú 211,3 stig eftir nokkra styrkingu undanfarna daga samkvæmt upplýsingum frá Glitni.

Í Morgunkorni sínu bendir Greining Glitnis á að ekki sé útilokað að inngrip Seðlabankans valdi þessu.

Greiningardeildin bendir á að Seðlabankinn hefur lýst sig reiðubúinn að beita inngripum á gjaldeyrismarkaði til að stuðla að þessu markmiði eftir því sem efni standa til. Bankinn seldi þannig rúmar 11 milljónir evra úr forða sínum í desembermánuði, og var stærstur hluti þeirra viðskipta við erlenda eigendur ríkisbréfa sem vildu skipta vaxtatekjum sínum í evrur.

,,Ekki liggur fyrir hvort, og þá í hve miklum mæli, Seðlabankinn hefur beitt sér á gjaldeyrismarkaði í janúar, en ekki er útilokað að inngrip hans eigi einhvern þátt í styrkingu undanfarinna daga. Gjaldeyrisforði bankans mun að líkum stækka talsvert eftir því sem lán nágrannaþjóða og næsta útborgun á láni AGS skilar sér, og að sama skapi aukast burðir bankans til að beita sér á markaði, sem og trú manna á getu hans til að bregðast við miklum sveiflum í gengi krónu á næstu misserum," segir í Morgunkorni.