Þótt ríkisstjórnin telji sig hafa náð mikilvægu markmiði með hallalausu fjárlagafrumvarpi þá er ekki þar með sagt að rekstrarniðurstaðan verði það. Hagfræðideild Landsbankans bendir á það í Hagsjá sinni í dag að leiðin frá frumvarpi til fjárlaga, til fjáraukalaga og svo til ríkisreiknings er löng og geti fjárlögin tekið nokkrum breytingum til hins verra.

Hagfræðideildin bendir á ríkisfjármál síðasta árs máli sínu til stuðnings. Upphaflega var þá gert ráð fyrir 18 milljarða króna halla á fjárlögum. Þau voru samþykkt með 21 milljarðs króna halla. Í fjárlaukalögum jókst hallinn upp í 26 milljarða króna. Endanleg niðurstaða var svo halli upp á 36 milljarða króna eða tvöfalt meira en upphaflega var stefnt að.

Hagfræðideildin skrifar:

„Sagan og reynsla síðustu ára bendir því ekki til þess að niðurstaða rekstrar ríkisins á árinu 2014 verði jákvæð, nema agi við fjármálastjórn verði stóraukinn. Eins og áður segir er stefnt að því að bæta umgjörð ríkisfjármála á næstu misserum. Það þarf því grundvallarbreytingu strax í meðferð ríkisfjármála ef markmið um hallalausan rekstur á árinu 2014 eiga að nást.“