Evrópskir bankar hafa náð miklum árangri í að bæta fjárhagsstöðu sína á síðasta ári, segja forsvarsmenn Evrópusambandsins. Þeir segja enga þörf á frekara fjármagni frá ríkinu í formi eigin fjár. Talsmaður Olli Rehn, framkvæmdastjóra efnahags- og gjaldeyrismála ESB, segir að nýgerð álagspróf sýni að einungis lítill hópur banka þurfi fjárveitingu frá ríkinu og að hvert ríki fyrir sig vinni nú þegar að vanda þeirra.

Talsmaðurinn segir fjármögnun bankanna mun betri en fyrir ári síðan, en fjallað er um orð hans á vef Financial Times. Hann sagði að fyrsti kostur væri alltaf sá að bankar í einkaeigu vinni úr sínum vandamálum sjálfir.

Efnahagsnefnd Evrópusambandsins hittist síðar í dag. Financial Times segir að svo virðist sem fundurinn sé sértaklega haldinn til að bregðast við orðum Christine Lagarde, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem kallaði eftir að ríki Evrópu veiti bönkum fjármagn.