Í gær tilkynnti George Osborne fjármálaráðherra Bretlands um verulegar breytingar á velferðarkerfinu. Á flokksþingi Íhaldsflokksins sagði hann meðal annars að barnabætur falli niður árið 2013 til þeirra sem hafa 44.000 pund í árstekjur, sem svara rúmum 8 milljónum á ári.

Þetta kemur fram á vef Guardian.

Þetta þýðir að tekjuhærra fólk verður af um 1.000 pundum á ári vegna fyrsta barns, en allt að 2.500 pundum ef viðkomandi eiga þrjú börn. Á sama tíma tilkynnti Osborne að 26.000 punda hámark yrði sett á bætur til hvers heimilis.

Fréttaskýrendur telja tillögur þær sem Osborne kynnti í gær til marks um hugrekki þar sem líkur eru á mikilli andstöðu við þær. Til dæmis hafi hópur (e. think tank) sem Ian Duncan Smith fyrrum formaður Íhaldsflokksins kom á fót, lýst yfir áhyggjum vegna þessara tillagna og lagt til að aðrar leiðir verði skoðaðar.