Samtök atvinnulífsins telja að frumvarp til laga um Ríkisútvarpið feli í sér vissa framför frá fyrra frumvarpi. Samtökin telja þó að frumvarpið samræmist ekki ákvæðum EES samningsins um ríkisstyrki, sé í andstöðu við markmið samkeppnislaga og tryggi ekki ásættanlegt jafnræði milli opinberra aðila og einkaaðila í útvarpsrekstri eins og kemur fram í frétt á heimasíðu SA.

Þar er bent á að þannig sé t.d. í frumvarpinu, ólíkt því sem EES reglur um ríkisaðstoð krefjast og getið er um í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, ekki beinlínis mælt fyrir um skyldu RÚV til að veita tiltekna og magngreinda þjónustu í almannaþágu gegn þeim ríkisstyrk sem félaginu er ætlaður, heldur er ákvæðið skrifað nánast eins og heimildarákvæði í kringum alla núverandi starfsemi RÚV.