Hugsanlegt er að fjárfesting sé ekki meiri nú en raun ber vitni þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki hafi almennt komið of skuldsett út úr endurskipulagningu hjá bönkunum. Þá hefur óvissa um lögmæti gengislána sömuleiðis valdið því að endurskipulagning margra fyrirtækja hafi tafist.

Hagfræðideild Landsbankans veltir málinu fyrir sér í mánaðarritinu Vegvísi sem kom út í dag. Deildin segir fjármagnshöftin hjálpa auðvitað ekki, en þau dragi úr áhuga erlendra fjárfesta á landinu. Einnig megi ekki vanmeta sálfræðileg áhrif þeirra á innlenda fjárfesta.

Deildin bendir jafnframt á að þessu tengt þá virðist einnig erfitt fyrir fyrirtæki að fjármagna fjárfestingarverkefni. Fjármálafyrirtæki eru hugsanlega orðin of íhaldssöm og með of strangar kröfur um eiginfjárframlög og veðhlutföll. Ekki ku vera einhlít skýring á því hvers vegna fjárfesting er ekki meiri og telur deildin til að óvissa verður oftast til þess að draga úr vilja til að fjárfesta.

„Töluverð óvissa er enn uppi í íslensku efnahagslífi m.a. um hvenær og með hvaða hætti fjármagnshöftunum verður aflétt en það hefur áhrif á viljann til fjárfestinga hér á landi. Ætla má að óvissan í kringum breytingar á fiskveiðilöggjöfinni hafi dregið úr fjárfestingaráformum í sjávarútvegi, en fjárfesting í fiskveiðum dróst saman um 20% milli ára. Tafir hafa orðið á frekari fjárfestingu í stóriðju fyrir utan stækkun álversins í Straumsvík sem er reyndar komin í bið núna. Alls dróst fjárfesting í framleiðslu málma saman um 36%,“ segir hagfræðideildin í Vegvísi.