Fyrir síðustu jól fór fram almennt hlutafjárútboð Icelandair Group á genginu 2,5 en gengi bréfa við lok markaða í gær var 5,84. Það þýðir að markaðsvirði félagsins er nú um 29,2 milljarðar króna.

Við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins á síðasta ári eignuðust Framtakssjóður Íslands og lífeyrissjóðir töluverðan hlut í félaginu eftir að hafa lagt því til þrjá milljarða króna.

TIlkynnt var í dag að Framtakssjóðurinn ætli að selja 10% hlutafjár í Icelandair Group til fagfjárfesta með áskriftarfyrirkomulagi. Lágmarksverðið er 5,42 krónur á hlut.

Var verðið of lágt?

Tvær spurningar vakna; annars vegar hvort hlutabréfaverðið í útboðinu, gengið 2,5, hafi verið of lágt og hins vegar hvort innistæða sé fyrir þeirri hækkun sem orðið hefur frá því að útboðið fór fram.

Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair Group, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ólíkt flestum öðrum flugfélögum sýni Icelandair góðar kennitölur í rekstri. Varðandi gengið í hlutafjárútboðinu vill Sigurður ekki meina að það hafi verið of lágt miðað við þáverandi aðstæður.

„Útboðsgengið var ákveðið vorið 2010, en þá stóð gosið í Eyjafjallajökli sem hæst og mikil óvissa um framhaldið. Síðan þá var afkoma félagsins þó mun betri en gert var ráð fyrir,“ segir Sigurður.

„Útboðsgengið 2,5 var því mjög eðlilegt miðað við aðstæður enda sýndi það sig í þátttökunni í útboðinu sjálfu.“

Nánar má lesa um Icelandair Group í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.