Greining Arion banka telur að gjaldeyriskaup Seðlabankans sé jákvætt skref. Ísland þurfi á öflugum óskuldsettum gjaldeyrisforða að halda í framtíðinni á meðan Ísland er með sjálfstæða mynt. Seðlabankinn tilkynnti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi að bankinn muni hefja gjaldeyriskaup á millibankamarkaði þann 31. ágúst næstkomandi.

Markmið Seðlabankans með kaupunum er að auka þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er fenginn að láni. Í dag er forðinn fyrst og fremst byggður upp af lántökum. Greining Arion banka fjallar um gjaldeyriskaup Seðlabankans í markaðspunkti sínum í dag.

Gjaldeyriskaup ekki ný af nálinni

Seðlabankinn hefur áður keypt gjaldeyri á millibankamarkaði. Til að mynda keypti Seðlabankinn gjaldeyri fyrir rúmlega 140 milljarða króna (nettó) á árunum 2002-2008. Kaupunum var hætt í mars 2008 þegar gengi krónunnar gaf verulega eftir. Þá var bankinn umsvifamikill á millibankamarkaði fyrstu mánuðina eftir hrun. Bankinn seldi þá gjaldeyri fyrir 69 milljarða króna (nettó). Bankinn hefur ekki beitt sér á millibankamarkaði frá því í nóvember 2009.

Settar þröngar skorður

Greining Arion banka segir að Seðlabankanum séu settar afar þröngar skorður ef gengi krónunnar á ekki að breytast við kaupin. Í nýbirtri hagspá Seðlabankans er gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar út spátímabilið.

Ástæður þess eru einkum tvær. Í fyrsta lagi hefur velta á millibankamarkaði verið afar lítil á þessu ári. Veltan hefur einungis numið um 9 milljörðum króna. Á síðasta ári var hún 62 milljarðar króna en til samanburðar var velta á millibankamarkaði ríflega 500 milljarðar króna árið 2007 og um 7500 milljarðar króna árið 2008. Lítil velta takmarkar svigrúm Seðlabankans.

Greining Arion banka segir að í öðru lagi geri Seðlabankinn ráð fyrir að viðskiptajöfnuður, án gömlu bankanna, verði rétt yfir núlli næstu árin. Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að á þessu ári verði viðskiptaafgangur á þessu ári 3,6% af vergri landsframleiðslu og 1,1% á árunum 2011-2012. Því megi álykta að inngrip Seðlabankans verði af svipaðri stærðargráðu, um 1% af vergri landsframleiðslu. Greiningin segir að þó sé möguleiki á að innflæði fjármagns komi með öðru leiðum og þá í gegnum fjármagnsjöfnuðinn. Það geti til dæmis komið sem erlent fjármagn eða bein erlend fjárfesting.

Myndi taka áratugi

Ef stefnan yrði sett á óskuldsettan gjaldeyrisforða myndi forðasöfnun taka 20-30 ár miðað við spá Seðlabankans um undirliggjandi viðskiptaafgang. Greiningin tekur þetta dæmi til viðmiðunar og miðar við að stefnt sé að óskuldsettum gjaldeyrisforða sem er um þriðjungur af landsframleiðsu, eða um 500 milljarðar króna.