Greiningardeild Íslandsbanka segir tvísýnt um hvort gjaldeyrisútboð Seðlabankans nái að leysa aflandskrónuvandann.

Í morgunkornum dagsins er farið yfir niðurstöður gjaldeyrisútboðsins í gær. „Niðurstaðan úr gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands sem haldin voru í gær ætti að hressa aðeins brúnina á mönnum þar á bæ eftir þá litlu þátttöku sem var í útboðunum í mars sl.,“ segir í frétt bankans. Eins og fram kom hér á vb.is í gær tók Seðlabankinn tilboðum að fjárhæð 38,6 milljónum evra í útboði gærdagsins.

Greiningardeild Íslandsbanka virðist þó telja að góð niðurstaða í útboðunum í gær sé ekki endilega vísbending um að útboðsáætlun Seðlabankans muni duga til að minnka verulega aflandskrónustabbann á næstu misserum.

„Virðast þær fjárhæðir sem líklegar eru til að skipta um hendur í útboðum bankans of litlar í samanburði við snjóhengjuna svokölluðu til þess að gera gæfumuninn, nema til komi veruleg aukning erlendrar fjárfestingar sem notfærir sér 50/50 leið bankans“.