Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) skoðar nú réttarstöðu sína vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur um að félagið beri að greiða Glitni HoldCo tæplega tvo milljarða króna. Telur félagið að þrotabú hins fallna banka sé ekki réttur aðili máls þar sem umrædd krafa hafi runnið til ríkisins í formi stöðugleikaframlags.

„Allir ársreikningar Glitnis frá 2015 til 2019 og ríkisreikningur fyrir árið 2016 staðfesta að mati ÚR að umræddar kröfur eru ekki á meðal eigna þrotabúsins heldur ríkissjóðs. Héraðsdómur átti að vísa málinu frá vegna þess að ÚR er dæmt til að greiða aðila sem á ekki þessa meinta kröfu. Eftir að málið var dómtekið hefur komið fram í mati ríkisendurskoðanda, sem framkvæmdastjóri ÚR hefur undir höndum, að umræddar kröfur eru í eigu ríkisjóðs,“ segir í tilynningu ÚR sem send var fjölmiðlum rétt í þessu.

Sjá einnig: ÚR greiði Glitni tvo milljarða

Fyrir dómi fór ÚR fram á það að stöðugleikasamkomulag yrði gert opinbert. Var framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands meðal annars kallaður fyrir dóminn til að bera vitni. Í yfirlýsingu ÚR segir að honum hafi borið að koma með samninginn „en hann óhlýðnaðist dómara og neitaði að koma með samninginn.“ Vitnisburður hans hafi síðan stangast á við fullyrðingar í ársreikningum Glitnis HoldCo, ríkisreikningi ársins 2016 og mat ríkisendurskoðanda.

„ÚR unir illa úrskurði héraðsdóms sérstaklega í ljósi þess að þrotabú Glitnis og fulltrúar hins opinbera komast undan kröfu um að sanna aðild sína að málinu. Það skýtur skökku við þegar gerðar eru auknar kröfur af almenningi og hinu opinbera til einkaaðila um gagnsæi að opinberir aðilar haldi kyrfilega leyndum samningum sem þeir gera við þrotabú í eigu erlendra huldusjóða og hindri þannig framgang eðlilegrar réttvísi hér á landi,“ segir í yfirlýsingunni.

Verði dóminum ekki áfrýjað mun ÚR þurfa að reiða fram tvo milljarða króna auk dráttarvaxta, og þar með vaxtavaxta, frá maí 2016. Gróflega áætlað mun dómsorðið því kosta ÚR ríflega þrjá milljarða króna að teknu tilliti til vaxta.