Lítið eldgos er líklega hafið undir sporði Dyngjujökuls og hefur Ríkislögreglustjóri ákveðið að færa hættustig upp á neyðarstig og Veðurstofa Íslands fært litakóða vegna flugs upp á rautt, sem þýðir að flug er nú bannað yfir svæðinu.

Samkvæmt fréttatilkynningu um málið er talið að um lítinn atburð sé að ræða enn sem komið er og vegna þrýstings frá jöklinum er óljóst hvort gosið muni eingöngu verða undir jökli eða koma upp úr honum.

Búið er að loka Jökulsárgljúfrum og hafin rýming ferðamanna þaðan sem og af Dettifosssvæðinu. Að svo stöddu er ekki talin ástæða til að rýma íbúa- og frístundabyggð í Kelduhverfi, Öxarfirði og Núpasveit. Fólk á þessu svæði er hvatt til að fylgjast grannt með fréttum og vera í stöðugu farsímasambandi.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er farið ítarlega yfir mögulegar afleiðingar goss við Bárðarbungu en þar segja forsvarsmenn flugfélaga ekki hafa miklar áhyggjur af eldsumbrotum en fylgjast þó grannt með gangi mála. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .