Verðbólga þessa dagana er að stórum hluta drifin áfram af hækkun íbúðaverðs á sama tíma og styrking krónunnar frá í nóvember hefur haldið henni niðri. Greining Íslandsbanka telur horfur á því að verðbólga verði lítil fram eftir ári en vaxa þegar kemur fram á veturinn. „Það sem helst gæti ýtt upp verðbólgu næsta kastið væri áframhaldandi hröð hækkun íbúðaverðs eða ef krónan gæfi verulega eftir. Það síðarnefnda virðist þó fremur ólíklegt næstu mánuði, þegar gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna fer að ná árstíðabundnu hámarki,“ segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Eins og fram kom í morgun hækkaði vísitala neysluverðs um 0,31% á milli mánaða í apríl og mælist verðbólga 2,3%. Þetta er í takt við væntingar.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að horfur séu á að verðbólga mælist nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram eftir árinu. Bráðabirgðaspá deildarinnar gerir ráð fyrir 0,1-0,4% hækkun vísitölunnar fram á sumar og að verðbólga verði 2,1% í júlí. Gert er ráð fyrir að hún verði lág eftir því sem nær líður áramótum.