Mesta hættan sem stafar að ólympíuleikunum í Lundúnum næsta sumar er svindl íþróttamanna. Mikil hætta er talin á því að íþróttamenn láti undan þrýstingi vegna veðmála tengdum leikunum eða verði þvingaðir til þess að laga úrslit einstakra íþróttaviðburða í tak við veðmál sem tengjast leikunum.

Þetta er mat Interpol en frá þessu er greint á vef BBC.

Interpol hefur varað stjórnendur ólympíuleikanna við því að ákveðnir glæpahópar kunni að hafa áhrif á úrslit íþróttaviðburða. Hins vegar sé það mat Interpol að lítil hætta stafi af hryðjuverkaógn eða annarri glæpastarfsemi, þ.e.a.s. annarri en þeirri sem minnst var á hér í upphafi.

Interpol hefur þó staðið að miklum æfingum í Bretlandi vegna leikanna undanfarin misseri, sérstakleg á Times ánni í Lundúnum.

Að sögn talsmanns Interpol hefur verið mikið um svindl og þvingaðar niðurstöður í íþróttarviðburðum undanfarin misseri, sérstaklega á knattspyrnuleikjum víðs vegar um Evrópu. Þá hafi líka verið nokkuð um svindl á sviði frjálsíþrótta.

Skipuleggjendur ólympíuleikanna gefa þó lítið fyrir þessa aðvörun Interpol og segjast ekki hafa áhyggjur af ofangreindum atriðum.