Ekki ætti að koma á óvart ef vöxtur einkaneyslu á fyrstu níu mánuðum ársins hafi reynst hægari en bráðabirgðatölur Hagstofunnar hafa gert ráð fyrir. Þetta er mat Greiningar Íslandsbanka sem telur tölurnar hafa verið ofmetnar. Það getur svo haft áhrif á hagvaxtartölur.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningardeildarinnar í dag. Þar er bent á að samkvæmt upplýsingum hagstofunnar jókst einkaneyslua á tímabilinu um 3,2% á milli ára. Kortavelta einstaklinga jókst á sama tíma innanlands um 2,2%.

Greiningardeildin bendir á að Seðlabankinn spái því að einkaneysla muni aukast um 3,0% á þessu ári og Hagstofa 3,5%. Greining Íslandsbanka reiknar hins vegar með 3,4% á þessu ári.

Greiningardeildin vekur m.a. athygli á því í Morgunkorninu að dregið hafi úr vexti kortaveltu eftir því sem liðið hafi á árið.

Í Morgunkorninu segir:

„Bendir það til þess að vöxtur einkaneyslu reynist mun hægari á seinni helmingi ársins en þeim fyrri. Skýringin á því gæti að hluta til verið sú að nú er að draga hratt úr áhrifum einskiptiaðgerða stjórnvalda sem hafa aukið vöxt einkaneyslu síðustu misseri. Er hér átt við aðgerðir á borð við heimildir til útborgunar séreignarsparnaðar og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Núna stendur hinsvegar til að framlengja heimildina til útborgunar séreignarsparnaðar, sem gæti orðið til þess að örva innlenda eftirspurn eitthvað á næsta ári. Þá hefur hægt verulega á kaupmáttaraukningu launa. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur aukist um 0,9% en í maí síðastliðnum hafði kaupmátturinn á þennan mælikvarða aukist um 5,3%.  Í ljósi alls þessa er ekki skrýtið að hægt hafi á vexti einkaneyslu.“