Allt bendir til þess að fjárlagahallinn í ár verði um tíu sinnum hærri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Við kynningu fjárlaga þessa árs sem Oddný G. Harðardóttir, þá fjármálaráðherra, lagði fram í september í fyrra var gert ráð fyrir fyrir tæplega þriggja milljarða halla á rekstri ríkissjóðs á þessu ári.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stefnir hins vegar í að hallinn í ár verði um 35 milljarðar króna. Einnig stefnir í að fjárlagahalli næsta árs verði að óbreyttu umtalsverður. Heimildir blaðsins herma að að þessi bráðabirgðaútreikningur fjármálaráðuneytisins hafi verið kynntur fyrir nýrri ríkisstjórn.

Helsta ástæðan fyrir þessum mun frá fjárlögum á milli ára mun vera sá að aðgerðir sem áttu að vera til þess fallnar að auka tekjur ríkisins hafa ekki gengið eftir miðað við þær forsendur sem lagt var upp með.

Eftir því sem næst verður komist mun Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynna stöðu ríkisfjármála á næstu dögum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .