Greiningardeild Glitnis birtir útreikninga í Morgunkorni sínu á virði Icelandair í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir. Miðað við að söluandvirði félagsins samsvari EV/EBITDA 8,0 megi reikna að heildarvirði (EV) félagsins nemi u.þ.b. 44-48 milljörðum króna segir greiningardeild Glitnis.

Bókfært virði félagsins eru rúmir 8 milljarðar króna en greiningardeild Glitnis telur erfiðara að áætla skiptingu efnahagsreiknings FL Group sem er forsenda þess að reikna hugsanlegan söluhagnað vegna Icelandair Group.

Í Morgunkorninu er bent á að fátt nýtt kom fram í kynningu á Icelandair Group á kynningardegi FL Group (Capital Markets Day) í Amsterdam síðastliðinn fimmtudag annað en að tekjuáætlun Icelandair Group fyrir árið 2006 nemur 51,5 milljörðum króna og vonir standa til að EBITDA yfirstandandi árs verði svipuð og árið 2002 eða 5,9 milljarðar króna.

Þess má geta að erlendir fjölmiðlar hafa sagt áætlaðan söluhagnað FL Group af Icelandair, ef til skráningar kemur, vera um 18 milljarða króna en Hannes Smárason, stjórnarformaður félagsins hefur sagt í Viðskiptablaðinu að þær tölur séu ekki frá honum komnar.