Nýlega frétti ég af því að hollenska fyrirtækið Oil & Vinegar hefði til sölu vörur sem að líkjast mjög gini sem við framleiðum," segir Ragnheiður Axel Eyjólfsdóttir, meðstofnandi brugghússins Og natura. „Aðdraginn var sá að ég fékk sendar myndir frá aðila í Þýskalandi sem hélt að við værum farin að gera edik en svo var auðvitað ekki," segir Ragnheiður.

Vörurnar sem um ræðir eru annars vegar Wild Gin og Wild Pink Gin sem Og natura framleiðir og hins vegar Gin Vinegar og Pink Gin Vinegar sem Oil & Vinegar framleiðir. Oil & Vinegar notar sömu jurtir og Og natura og þá eru flöskurnar einnig mjög líkar. „Við notum einiber, ætihvannarrót og blóðberg í framleiðslu okkar á Wild Gin. Það eru sömu hráefni í Wild Pink Gin auk sólberja. Oil & Vinegar notar nákvæmlega sama hráefnið í sínum vörum nema að það notar timjan en ekki blóðberg," segir Ragnheiður, en þess má geta að blóðberg er af sömu ættkvísl og timjan.

Vörurnar eru jafnframt áþekkar útlitslega séð. Ginlína Og natura fékk nýtt útlit um áramótin og hefur fengið töluverða athygli út á það. Laufey Jónsdóttir hannaði flöskuna og umbúðirnar. „Þeir nota sömu gerð af flösku, þetta er auðvitað klassísk gerð af flösku en þær eru nákvæmlega eins, með trétappa og allt. Mér brá þegar ég sá líkindin og þau eru það mikil að varla getur verið að um tilviljun sé að ræða."

Íhuga málsókn

Brugghúsið sendi Oil & Vinegar nýverið bréf þar sem bent var á líkindin og þess krafist að fá vita hvaðan hugmyndin að vörunum kæmi og hver hefði hannað þær. „Við sendum þeim póst en höfum ekki fengið nein viðbrögð." Ragnheiður segir Og natura nú vera að íhuga næstu skref og lagalegan rétt sinn. „Það er möguleiki á að við höfðum málsókn. Það eru til svipuð fordæmi, meira að segja sem manni finnst langsótt. Það er klárlega grundvöllur fyrir málsókn og við þurfum að skoða það betur. Það er spurning hvort það borgar sig fyrir okkur sem nýstofnað fyrirtæki að standa í því en kannski gerum við það."

Og natura framleiðir áfengi úr íslenskum jurtum og hráefnum en auk gins framleiðir brugghúsið náttúruvín, bjór, vodka, líkjöra og kokkteila. Viðskiptafélagi Ragnheiðar í Og natura er Liljar Már Þorbjörnsson og hefur brugghúsið verið í töluverðri útrás vestanhafs upp á síðkastið.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Nýr yfirmaður talnagreingar hjá Kvika ræðir um feril sinn hjá Paypal og þar áður hjá einu stærsta tryggingafélagi heims.
  • Rætt er við forsvarsmenn nokkurra hótelkeðja um stöðu mála nú þegar rofar til í faraldrinum.
  • Fjallað er um skaðabótamál gegn íslenska ríkinu vegna ólöglegra innflutningshamla á landbúnaðarafurðir.
  • Sagt er frá deilu Allrahanda við kröfuhafa.
  • Ítarleg umfjöllun um styttingu vinnuvikunnar hér á landi og ljósi varpað á glansmynd heimspressunnar.
  • Farið er yfir stöðuna á fasteignamarkaði.
  • Rétt er við nýútskrifaðan hugbúnaðarverkfræðingir sem þróaði tauganet í meistaraverkefni sínu sem flokkar Twitter-tíst eftir því hvort þau hafi áhrif á þróun markaða.
  • Óðinn fjallar um kynjaveröld Kristrúnar og Hættuspil.
  • Týr fjallar um komandi sveitarstjórnarkosningar og hrafnarnir eru á sínum stað.