Greiningarfyrirtækið IFS Greining metur verðmæti bréfa Icelandair Group á 21 krónu á hlut. Telur IFS markaðsvirði félagsins því vera 105 milljarðar króna eða 760 milljónir Bandaríkjadala.

Við lokun markaða í gær stóð gengi bréfa Icelandair Group í 15,85 krónum á hlut og telur IFS félagið því rúmlega 32,5% undirverðlagt á markaði. Fyrra verðmat IFS frá 8. ágúst hljóðaði upp á 19,9 krónur á hlut, en var uppfært í kjölfar birtingar á uppgjöri Icelandair Group fyrir þriðja ársfjórðung.

EBITDA verði 14,5% til eilífðar

Í verðmati IFS, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er talið að arðsemi Icelandair Group muni aukast á næstu árum. EBITDA-spá IFS er færð upp á við í matinu, þrátt fyrir 20% aukningu í olíuverði frá síðasta verðmati. Gert er ráð fyrir því að EBITDA félagsins verði 173 milljónir Bandaríkjadala í ár. Milli 2018 og 2020 er spáð að EBITDA muni aukast í kringum 30 milljónir á ári, úr 193 milljónum dollara í 247 milljónir. Þá er áætlað að EBITDA hlutfall fyrirtækisins til langs tíma litið sé um 14,5%.

IFS telur að tekjur af farþegaflutningum Icelandair muni vaxa næstu árin. Gert er ráð fyrir að þær tekjur verði rúmlega milljarður Bandaríkjadala í ár, 1,1 milljarður árið 2018 og 1,2 milljarðar árið þar eftir. Spáð er að farþegafjöldi Icelandair muni aukast um 10% á næsta ári, úr 4 milljónum farþega í tæplega 4,5 milljónir. Einnig gerir IFS ráð fyrir því að framboðnir sætiskílómetrar muni aukast um 11% milli ára, en spáð er að fjöldi flugferða á alþjóðavísu muni aukast um 10%, einkum til Norður-Ameríku. Á tímabilinu er gert ráð fyrir að rekstrartekjur Icelandair Group aukist úr 1,4 milljörðum dollara í tæplega 1,7 milljarða.

Á kostnaðarhliðinni spáir IFS að rekstrarkostnaður Icelandair Group hækki úr 1,2 milljörðum dollara í ár í rúmlega 1,4 milljarða árið 2019. Gert er ráð fyrir að hægja muni á aukningu launakostnaðar, sem er stærsti útgjaldaliður Icelandair Group. Spáð er að kostnaður félagsins á hvern framboðinn sætiskílómetra muni batna á komandi árum, einkum með tilliti til nýrra flugvéla, lengra flugs og launa.

Þá telur IFS að breytingar og hagræðingaraðgerðir Icelandair Group – til dæmis tilkoma Economy Light, fjölgun um eina sætaröð í 25 B757- 200 vélum sínum, endurskipulagning söluskrifstofa í Mið-Evrópu og Skandinavíu, og betri nýting í fraktflugi – muni bæta skilvirkni í rekstri, einkum með betri sætanýtingu, aukatekjum og lægri kostnaði. Þá munu fjárfestingar í nýjum flugvélum auka EBITDA næstu árin vegna eldsneytissparnaðar og lægri viðhaldskostnaðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .