Samband Garðyrkjubænda hefur sent tollstjóra bréf þar sem spurt er skýringa á innflutningi Blómavals. Garðyrkjubændur telja að fyrirtækið flytji inn blóm undir röngum tollflokki og fari þannig á svig við tollalögin. Tollaflokkurinn sem um ræðir er jafnan kallaður „túnþökuflokkur“ og ber ekki með sér gjald. Tollaflokkar blóma bera hins vegar með sér bæði prósentuálagningu og einingagjald. Bréfi til Tollstjóra hefur ekki verið svarað. Kristinn Einarsson, framkvæmdarstjóri Blómavals, segir að ekkert sé hæft í að fyrirtækið fari ekki eftir tollalögum og að innflutningur fyrirtækisins sé í samstarfi við tollayfirvöld. Hann segir skiljanlegt að samkeppnisaðilar Blómavals fari með slíkar sögur en Blómaval brjóti ekki lög og hafi aldrei gert.