Á allsherjarfundi FATF (alþjóðlegur fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka) í dag var staðfest sú niðurstaða sérfræðingahópsins sem hefur séð um eftirfylgni með aðgerðaáætlun Íslands hjá FATF að Ísland hefði lokið aðgerðunum með fullnægjandi hætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu .

Á fundinum var einnig samþykkt samhljóða að fulltrúar sérfræðingahópsins muni koma til Íslands í vettvangsathugun til þess að staðfesta árangurinn. Ekki hefur verið ákveðin endanleg dagsetning slíkrar athugunar, en stefnt er að því að vettvangsathugunin fari fram í byrjun september næstkomandi, að því gefnu að COVID-19 standi því ekki í vegi.

Verði árangur Íslands staðfestur í vettvangsathuguninni má gera ráð fyrir að lögð verði fram tillaga um að Ísland verði tekið af svonefndum gráa lista FATF á fundi FATF í október.