*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 15. apríl 2018 15:04

Telja Ísland vera í kjörstöðu

Norðurslóðastefna Kínverja um belti og braut getur hjálpað til við að nýta stöðu Íslands sem tengistöðvar í lofti og á sjó, segir Heiðar Guðjónsson fjárfestir.

Snorri Páll Gunnarsson
Egill Þór Níelsson, framkvæmdastjóri Kínversk-Norrænu norðurslóðamiðstöðvarinnar, og Heiðar Guðjónsson, fjárfestir.

Kína gaf út sína fyrstu norðurslóðastefnu í byrjun þessa árs eftir margra ára undirbúningsvinnu, en Kína kynnti norðurslóðavídd undir belti og braut framtakinu í júní árið 2017. Framkvæmdastjóri Norrænu-Kínversku norðurslóðamiðstöðvarinnar segir Kína geta komið gríðarstórum sjóðum í vinnu við uppbyggingu innviða á norðurslóðum. Fjárfestir telur Ísland vera í kjörstöðu í auknum viðskiptum um norðurslóðir.

Silkivegur um Norðurskautið

„Kínverjar vilja nýta norðurslóðir fyrir aukin viðskipti við Evrópu um Norður-Íshaf og eru með þessari stefnu að bjóða viðskiptatækifæri á sviði innviðauppbyggingar við norðurslóðaríkin,“ segir Egill Þór Níelsson, framkvæmdastjóri Kínversk-Norrænu norðurslóðamið­stöðvarinnar í Shanghai. Ýmsar ástæður kunna að vera fyrir því.

„Nýjar og öruggari siglingaleiðir hafa opnast á norðurslóðum vegna tækniframfara og hopunar íss en flutningaleiðir þar geta dregið verulega úr viðskiptakostnaði og sóun og tengt betur Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku. Lífsgæði, atvinnumöguleikar og efnahagslegur uppgangur er mikill á svæðinu – sem hefur verið kallað síðasti ný­markaður heims – og er þar að auki gríðarlega ríkt af náttúruauðlindum. Svæðið er hins vegar fámennt og með mikla þörf fyrir innviðafjárfestingar,“ segir Egill Þór.

GAMMA hefur áætlað að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í íslenskum innviðum sé rúmlega 600 milljarðar króna næsta áratuginn. Til samanburðar hafa Guggenheim Partners metið að norðurslóð­ir þurfi þúsund milljarða dollara, eða í kringum 100 þúsund milljarða króna, í innviðafjárfestingu á næstu 15 árum.

Kínverjar geta komið gríðarstórum sjóðum í vinnu á norðurslóðum á vegum fyrirtækja sem byggt hafa upp sérhæfingu sem er leiðandi í heiminum á sviðum á borð við innviði og netverslun,“ segir Egill Þór.

Fyrsta eiginlega fjárfesting kínverskra aðila undir þessari stefnu á norðurslóðum var í 27 milljarða dala Yamal jarðgasverkefninu í Síberíu. Rússland er enn sem komið er eina samstarfsríki Kína í belti og braut á norðurslóðum en önnur ríki sem liggja að Norður-Íshafinu eru Bandaríkin, Kanada, Grænland (Danmörk), Noregur og Ísland.

Sjá einnig: Vilja að Ísland taki þátt

Tímasetning skiptir höfuðmáli

Heiðar Guðjónsson fjárfestir og höfundur bókarinnar Norðurslóðasókn (2013) segir að norðurslóðastefna Kínverja undir belti og braut geti hjálpað til við að nýta stöðu Íslands sem hugsanlegrar tengistöðvar í lofti og á sjó. Heiðar er einnig stjórnarformaður Eykon Energy, sem átti meðal annars í samstarfi við kínverska orkufyrirtækið CNOOC um olíuleit á Drekasvæðinu.

„Flutningar eru undirstaða velmegunar og án þeirra er ekki hægt að stunda viðskipti eða stuðla að betri verkaskiptingu. Það skiptir því gríðarlegu máli að vera tengdur inn á flutninganet belti og brautar, sama hvort um er að ræða flutninga á vörum, fólki eða gögnum,“ segir Heiðar.  „Þarna eru Íslendingar í einstakri stöðu vegna legu landsins.“

Sem dæmi nefnir Heiðar að um 90% íbúa heims búa norðan miðbaugs og langflestir búa nær heimsskautsbaug en miðbaug. Norðurskautið er stysta leiðin milli Ameríku, Asíu og Evrópu og langstærsti hluti alþjóðaviðskipta fer þar fram milli þessara þriggja heimsálfa. „Reykjavík er nyrsta höfuðborg heims og við höfum hér mikið landrými til að nýta varðandi alla flutninga.“

Hvað áhættu varðar telur Heiðar að bein erlend fjárfesting í innviðum feli í sér takmarkaða áhættu. „Ástæðan er einföld: innviði er ekki hægt að flytja. Erlendir aðilar sem fjárfesta í innviðum í ákveðnu landi eru algerlega háðir stjórnvöldum viðkomandi lands með sitt fjármagn og fjárfestingin lýtur alltaf lögum viðkomandi lands.“ Tímasetning skipti þó höfuðmáli fyrir Ísland til að tengjast inn á hraðbraut viðskipta, enda séu kerfi sem mörg ríki tengjast tregbreytanleg.

Ísland er einnig eina ríkið á norðurslóðum með fríverslunarsamning við Kína og rammasamning um norðurslóðasamstarf. „Því væri Ísland í kjörstöðu gagnvart innviðaverkefnum sem gætu haft sameiginlegan ágóða,“ segir Egill Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is