Greiningardeild Landsbankans telur að kaup Actavis á rúmenska lyfjafyrirtækinu Sindan séu mjög hagstæð. Actavis hélt kynningarfund í kjölfar tilkynningarinnar í gær. Þar kom m.a. fram að Sindan væri fjölskyldufyrirtæki sem hefði verið í sölumeðferð og að Actavis hefði orðið fyrir valinu sem kaupandi, þrátt fyrir að tilboð þeirra hefði ekki verið hæst.

Kaupverðið nemur 147,5 m.evra og EV/EBITDA kaupanna er 7,6 sem verður að teljast hagstæð kaup ef miðað er við önnur fyrirtækjakaup á samheitalyfjamarkaðinum. Að okkar mati minna kaupin á Sindan á kaup Actavis á bandaríska lyfjafyrirtækinu Amide á síðasta ári. Amide var skuldlaust fjölskyldufyrirtæki og átti töluvert handbært fé. Kaupin voru gerð á hagstæðum margfaldara (EV/EBITDA 8,6) og það hálfa ár sem Amide hefur verið inni í bókum Actavis hefur komið í ljós hversu góð kaupin voru segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að með kaupunum sé Actavis að útvíkka lyfjaúrval sitt en Sindan framleiðir eingöngu krabbameinslyf. Sindan er næst stærsta fyrirtækið í Evrópu á þessu sviði og talið mjög framanleg í þróun á krabbameinslyfjum. Með kaupunum fylgja tvær verksmiðjur. Strangar gæðakröfur eru gerðar við framleiðslu á krabbameinslyfjum og kom m.a. fram á fundinum að ekki væri heimilt að framleiða önnur lyf innan verksmiðjanna á meðan verið er að framleiða krabbameinslyf. Vegna þessa eru ekki margar verksmiðjur sem geta framleitt krabbameinslyf.

Í Vegvísinum er bent á að árlegur tekjuvöxtur Sindan hefur verið 26% frá árinu 2002 þar sem fyrirtækið hefur verið að markaðssetja að jafnaði um 3-4 lyf á ári. Sindan áætlar að markaðssetja 6 ný lyf á þessu ári og er reiknað með 80 m.evra í tekjur (5% af tekjum samstæðunnar) sem samsvarar 17,6% tekjuvexti milli áranna 2005-2006. Mikið af einkaleyfum fyrir krabbameinslyf munu renna út á næstu árum sem mun styðja við frekari vöxt og er t.a.m. verið að reikna með 25% tekjuvexti milli áranna 2006-2007. Sindan áætlar að skila 22% EBITDA framlegð á yfirstandandi ári en ef litið er framhjá dreifingarstarfsemi Sindan er lyfjasalan að skila um 30% framlegð.

"Sindan verður góð viðbót við Actavis samstæðuna og er ljóst að Actavis er með einhverja leyniuppskrift á því hvernig eigi að laða áhugaverð fjölskyldufyrirtæki yfir til Actavis á hagstæðum kjörum. Er ekki annað hægt en að hrósa þeim fyrir þetta," segir í Vegvísi Landsbankans.